Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins

Föstudaginn 15. júlí 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 9. maí 2009, til félags- og tryggingamálaráðuneytis, síðar velferðarráðuneytis, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, kærði  […], hrl., fyrir hönd  […], kt.  […], ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa frá 20. febrúar 2009, um synjun á ábyrgð á kröfu  […] á hendur þrotabúi Nýs húss ehf., kt. 700905-1520.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Ábyrgðasjóðs launa um ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Nýs húss ehf., kt. 700905-1520. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 12. júní 2008. Krafa kæranda var tekin fyrir á fundi stjórnar Ábyrgðasjóðs launa þann 20. febrúar 2009 þar sem henni var hafnað með þeim rökum að skýrt væri kveðið á um það í ráðningarsamningi milli hennar og Nýs húss ehf. að hún væri ráðin til að gegna starfi framkvæmdastjóra félagsins. Ákvörðun stjórnarinnar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 27. febrúar 2009.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði  hana til ráðuneytisins. Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að hún hafi aldrei starfað sem framkvæmdastjóri hins gjaldþrota félags þó svo að það hafi staðið til í upphafi. Kærandi hafi verið ráðinn til starfa í júní 2007 og hafi starfað hjá félaginu þar til í september sama ár. Enn fremur kemur fram að kærandi hafi aldrei verið skráður framkvæmdastjóri né fjármálastjóri félagsins enda hafi hún aldrei gegnt þeim störfum hjá félaginu. Þá er tekið fram að verksvið kæranda hafi verið að afla fjármagns til félagsins í formi lána og nýrra hluthafa.

Kærandi bendir jafnframt á að félagið hafi staðið mun verr fjárhagslega en hún hafi gert sér grein fyrir í upphafi. Hafi hún aldrei komið nálægt ákvörðunum er vörðuðu fjármál félagsins en slíkar ákvarðanir hafi alfarið verið í höndum eiganda félagsins. Fram kemur að starfstími kæranda hafi varað stutt enda hafi félagið ekki verið í sömu stöðu og henni hafi verið greint frá þegar hún var ráðin til starfa. Eftir ítarlega skoðun skiptastjóra hafi krafa kæranda verið samþykkt í þrotabúið sem forgangskrafa enda hafi að mati kæranda verið ljóst af gögnum búsins að kærandi hafi ekki starfað sem framkvæmdastjóri félagsins.

Þá tekur kærandi fram að við mat á því hvort kæra falli utan ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa verði að beita þröngri túlkun enda sé um undantekningarákvæði að ræða. Að mati kæranda verði í því sambandi fyrst og fremst að horfa til þess að kærandi hafi hvorki verið skráður framkvæmdastjóri félagsins í hlutafélagaskrá né hafi kærandi haft prókúruumboð fyrir félagið. Hafi hún því hvorki haft þau réttindi né borið þær skyldur í starfi sem fylgi starfi framkvæmdastjóra. Þá verði að mati kæranda að skilja lög um Ábyrgðasjóð launa á þann veg að verið sé að koma í veg fyrir að þeir sem vissu eða máttu vita um fjárhag félagsins njóti ábyrgðar sjóðsins á kröfum þeirra gagnvart þrotabúi vinnuveitanda. Jafnframt ítrekar kærandi að starfstími hennar hjá félaginu hafi verið stuttur og hún hafi því ekki haft yfirsýn yfir fjárhag þess. Kærandi óski því eftir að ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa verði endurskoðuð og krafan samþykkt líkt og skiptastjóri þrotabúsins hafi gert að vel athuguðu máli.

Með bréfi, dags. 18. maí 2009, benti ráðuneytið kæranda á að stjórnsýslukæra hennar hefði borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti en samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, teljist kæra nægilega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hafi borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti innan tveggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun sjóðsins. Að öðru leyti fari um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. sama ákvæðis. Enn fremur kemur fram í bréfi ráðuneytisins að samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga beri að vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ráðuneytið óskaði því eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst að liðnum lögbundnum kærufresti. Frestur til að svara bréfi ráðuneytisins var veittur til 2. júní 2009.

Þar sem svarbréf barst ekki frá kæranda ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um nánari upplýsingar um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti með bréfi, dags. 19. júní 2009. Jafnframt kom fram í bréfi ráðuneytisins að bærust upplýsingar kæranda ekki fyrir 29. júní 2009 liti ráðuneytið svo á að kærandi sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um þennan þátt málsins og tæki því afstöðu á grundvelli þegar framkominna gagna, hvort afsakanlegt yrði talið að umrædd kæra hefði ekki borist ráðuneytinu fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Svarbréf kæranda barst ráðuneytinu þann 26. júní 2009. Í bréfi kæranda kemur fram að ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa sem dagsett var 27. febrúar 2009 hafi ekki borist til kæranda fyrr en 15. mars sama ár. Kærandi hafi því litið svo á að kærufresturinn hafi byrjað að líða frá þeim degi. Að mati kæranda væri það eðlilegt að kærandi hefði þann tíma sem lögin um Ábyrgðasjóð launa gerðu ráð fyrir til að íhuga málið og leggja fram kæru. Þess væri sérstaklega óskað í ljósi eðlis þess máls sem hér sé um að ræða og snúist um úrskurð um rétt til launa að kærandi verði ekki látin gjalda þess að hugsanlega sé ágreiningur um upphaf kærufrests og að kærandi muni njóta vafans í því sambandi.

Með bréfi, dags. 30. júní 2009, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Ábyrgðasjóði launa um hvenær mætti ætla að kærandi hefði fengið í hendur bréf frá Ábyrgðasjóði launa sem dagsett var 27. febrúar 2009 og hafði að geyma efnislega ákvörðun sjóðsins í umræddu máli.

Í bréfi Ábyrgðasjóðs launa, dags. 3. júlí 2009, kemur fram að Ábyrgðasjóður launa telji að bréf til kæranda hafi verið póstlagt 27. febrúar 2009. Sjóðurinn kunni því engar skýringar á því að bréfið hafi borist kæranda svo löngu síðar.

Með bréfi, dags. 8. september 2010, upplýsti ráðuneytið kæranda um að í ljósi framkominna gagna hefði verið ákveðið að taka til efnislegrar afgreiðslu erindi kæranda, dags. 9. maí 2009, þar sem kærð var ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa frá 20. febrúar 2009 um synjun á ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Nýs húss ehf. Jafnframt kom fram í bréfi ráðuneytisins að beðist væri velvirðingar á þeim töfum sem hefðu orðið á afgreiðslu málsins hjá ráðuneytinu en að afgreiðslu þess yrði hraðað eins og kostur væri.

Erindi kæranda var sent stjórn Ábyrgðasjóðs launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 8. september 2010, og var sjóðnum veittur frestur til 22. september 2010 til að skila umsögn sinni. Með bréfi, dags. 9. október 2009, ítrekaði ráðuneytið beiðni sína til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa um umsögn stjórnarinnar vegna umræddrar stjórnsýslukæru.

Í umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem barst ráðuneytinu 5. nóvember 2010 kemur meðal annars fram að umrædd krafa hafi verið tekin fyrir á fundi stjórnarinnar 20. febrúar 2009. Afstaða stjórnarinnar hafi verið sú að synja bæri kröfu kæranda þar sem skýrt væri kveðið á um í ráðningarsamningi hennar við Nýtt hús ehf., dags. 25. apríl 2007, að hún væri ráðin til að gegna starfi framkvæmdastjóra félagsins. Í hlutafélagaskrá komi fram að skráður framkvæmdastjóri sé [H], en að dagsetning samþykktar sé frá 4. september 2007. Ekki liggi fyrir afrit af hlutafélagaskrá fyrir þann tíma en samkvæmt upplýsingum frá lögmanni kæranda hafi kærandi ekki verið skráður í hlutafélagaskrá sem framkvæmdastjóri félagsins.

Enn fremur kemur fram að samkvæmt nefndum ráðningarsamningi hafi kærandi verið ráðinn til starfa frá og með 4. júní 2007. Í samningnum sé jafnframt tiltekið að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli vera einn mánuður á reynslutímanum sem hafi verið fjórir mánuðir. Stjórn Ábyrgðasjóðs launa telji að miða skuli við 4. júní 2007 enda liggi ekki fyrir að samið hafi verið um annað. Kærandi haldi því fram að samið hafi verið um það munnlega við vinnuveitanda að byrja fyrr eða 1. maí 2007. Sjóðurinn telji að þó svo að fyrir liggi tölvubréf sem geti stutt þá fullyrðingu þá beri að taka mið af undirrituðum ráðningarsamningi aðila við meðferð málsins. Kæranda hafi verið sagt upp störfum með bréfi, dags. 31. ágúst 2007, og að hún hafi staðfest móttöku uppsagnarbréfsins með undirskrift sinni þann 3. september 2007.

Jafnframt kemur fram í svarbréfi stjórnar Ábyrgðasjóðs launa að sjóðnum beri að hafna kröfu kæranda með þeim rökum að í nefndum ráðningarsamningi milli hennar og Nýs húss ehf. komi skýrt fram að um ráðningu framkvæmdastjóra sé að ræða. Því til stuðnings sé bent á að samningurinn beri með sér að starfssvið og launakjör kæranda séu í samræmi við stöðu framkvæmdastjóra og æðsta stjórnanda félagsins. Í 6. tölul. 4. gr. samningsins komi fram að kærandi sé yfirmaður deildarstjóra og þar með allra starfsmanna á öllum vinnustöðvum félagsins. Samkvæmt 13. gr. samningsins séu yfirmenn hennar stjórnarmennirnir  [J] og  [K].

Þá vilji stjórn Ábyrgðasjóðs launa auk þess koma á framfæri að kæranda hafi, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Ríkisskattstjóra, verið greidd laun fyrir októbermánuð 2007 að fjárhæð 363.440 kr. Kærandi hafi gert kröfu um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi fyrir október 2007 að fjárhæð 700.000 kr. Sé tekið mið af októbermánuði 2007 hafi mánaðarleg hámarksábyrgð sjóðsins á þeim tíma verið 312.000 kr. en samkvæmt framansögðu hafi kærandi fengið greidd laun í október 2007 sem hafi numið hærri fjárhæð. Af því leiði að verði fallist á rök kæranda um að kærandi hafi í raun ekki starfað sem framkvæmdastjóri félagsins yrði einungis samþykkt að taka til greina kröfu um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi vegna eins mánaðar, þ.e. októbermánaðar 2007. Þegar hafi verið greidd laun fyrir október 2007 að fjárhæð 363.440 kr. og því falli ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi vegna októbermánaðar þegar af þeirri ástæðu niður, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Í ljósi framangreinds telji Ábyrgðasjóður launa að staðfesta beri synjun á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Nýs húss ehf.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2010, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og var frestur til að koma fram með athugasemdir veittur til 25. nóvember 2010. Með bréfi, dags. 9. desember 2010, ítrekaði ráðuneytið við kæranda að hefðu athugasemdir hans ekki borist fyrir 16. desember 2010 liti ráðuneytið svo á að kærandi sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið og tæki það til efnislegrar afgreiðslu.

Svarbréf kæranda barst ráðuneytinu 15. desember 2010 þar sem ítrekað var að kærandi hafi aldrei starfað sem framkvæmdastjóri hjá hinu gjaldþrota félagi enda hafi eigendur starfað á skrifstofunni og þeir hafi einir haft umsjón með fjármunum félagsins, bæði hvað varði greiðslur og önnur bankaviðskipti. Kærandi hafi því aldrei tekið við því starfi framkvæmdastjóra sem getið sé í ráðningarsamningi.

Jafnframt tekur kærandi fram varðandi laun vegna október 2007 að þá virðist út frá þeim tölum sem nefndar séu að um uppgjör á orlofi sé að ræða en kærandi kannist ekki við að hafa fengið umræddar greiðslur. Svo virðist sem skilagreinum hafi verið skilað án þess að kærandi hafi fengið umrædd laun greidd. Af þeim ástæðum sé því mótmælt að greiðsla vegna októbermánaðar 2007 komi til frádráttar kröfu kæranda.

Enn fremur kemur fram í bréfi kæranda að skiptastjóri hafi samþykkt kröfur kæranda eftir að hafa skoðað gögn málsins og rætt við eigendur. Að mati skiptastjóra hafi störf kæranda ekki fallið undir undanþáguákvæði 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, enda hafi hún aldrei starfað sem stjórnandi. Að mati kæranda hafi Ábyrgðasjóði launa borið að taka tillit til afstöðu skiptastjóra og þar sem skiptastjóri hafi samþykkt kröfu kæranda hafi sjóðnum borið að greiða kröfuna. Horfa verði til raunverulegrar stöðu kæranda og mats skiptastjóra en ekki hvað standi í samningi aðila sem aldrei hafi komið til framkvæmda að þessu leyti.

Á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga óskaði ráðuneytið með bréfi, dags. 15. júní 2011, eftir gögnum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna kæranda fyrir tímabilið maí til október 2007. Enn fremur óskaði ráðuneytið eftir afriti úr hlutafélagaskrá vegna félagsins Nýs húss ehf., kt. 700905-1520, fyrir tímabilið júní til ágúst 2007. Svarbréf ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu 16. júní 2011.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, var heimilt að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, síðar velferðarráðuneytis, sbr. lög nr. 162/2010, um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta, sbr. einnig lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Kærufrestur er tveir mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Að öðru leyti fer um kæru samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ráðuneytið ákvað að taka mál þetta til efnislegrar afgreiðslu með vísun til 1. mgr. 28. gr. laganna þar sem ekki lá sannanlega fyrir hvenær bréf stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 27. febrúar 2009, hafði komið til vitundar lögmanns kæranda og þykir eðli máls samkvæmt að kærandi skuli njóta vafans í því efni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er það markmið laganna að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Ábyrgð sjóðsins er þó takmörkuð í 10. gr. laganna en skv. 1. mgr. þess ákvæðis njóta kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota félags ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum.

Mál þetta lýtur meðal annars að ágreiningi um hvaða stöðu kærandi hafi raunverulega gegnt hjá Nýju húsi ehf. á þeim tíma er hún vann hjá félaginu. Í málinu liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur undirritaður af kæranda, dags. 25. apríl 2007, þar sem kemur fram að kærandi sé ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra/fjármálastjóra hjá félaginu. Það er ágreiningslaust að kærandi starfaði hjá félaginu á umræddu tímabili.

Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum nr. 88/2003 er tekið fram að hin rekstrarlega ábyrgð hvíli á stjórnendum hins gjaldþrota félags auk þess sem þeir eigi að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu þess. Er meðal annars vísað til laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í ljósi framangreindrar ábyrgðar þessara aðila var ekki talið eðlilegt að sjóðurinn ábyrgðist kröfur þeirra um laun, launatengd réttindi og bætur vegna missis launa í uppsagnarfresti. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt þeir verði eftir atvikum taldir launamenn í skilningi skattalaga. Nánari skýringar á hlutverki framkvæmdastjóra félaga er ekki að finna í lögum um Ábyrgðasjóð launa og verður því að líta til annarra laga í þessu efni.

Hið gjaldþrota félag var einkahlutafélag. Lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, kveða á um hlutverk framkvæmdastjóra slíkra félaga. Í 44. gr. laganna er kveðið á um að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skal hún annast um að skipulag félags og starfsemi þess sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fari félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins en 41. gr. laganna fjallar nánar um ráðningu framkvæmdastjóra. Í 2. mgr. 44. gr. laganna er síðan kveðið á um starfsskyldur framkvæmdastjóra. Þar er honum ætlað að annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Jafnframt skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti, sbr. 3. mgr. 44. gr. laganna. Að síðustu er tekið fram í 4. mgr. 44. gr. laganna að einungis félagsstjórn geti veitt prókúruumboð.

Í athugasemdum við 44. gr. frumvarps þess er varð að 44. gr. laga nr. 138/1994 segir að greinin samsvari 52. gr. þágildandi laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Samkvæmt athugasemdum við 49. gr. frumvarps þess er í meðförum þingsins varð síðan að 52. gr. laga nr. 32/1978, fjallar ákvæðið sérstaklega um stjórn hins daglega rekstrar félags sem framkvæmdastjóri annast. Ekki er tilgreint hvað falli undir daglegan rekstur en tekið fram að í því efni verði að hafa hliðsjón af eðli starfseminnar og umfangi svo og venjum á viðkomandi sviði. Enn fremur er tekið fram að sú almenna greining sé gerð að ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar falli ekki undir hinn daglega rekstur. Slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt sérstakri heimild félagsstjórnar. Aðalábyrgð á umsjón og eftirliti með bókhaldi félagsins og stjórn fjármuna þess er sögð vera hjá framkvæmdastjóra en að eftirlitsskylda skuli hvíla á félagsstjórn. Þá virðist sem ekki hafi sérstaklega verið gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri hafi sjálfkrafa prókúruumboð heldur er veiting slíks umboðs einungis í valdi félagsstjórnar.

Um þessi atriði hefði kæranda mátt vera ljóst er hún réð sig til starfa hjá félaginu sem framkvæmdastjóri en eðlilegt er að gera þá kröfu til einstaklinga er þeir ráða sig til tiltekinna starfa að þeir kynni sér þau lög og reglur er um störfin gilda.

Samkvæmt gögnum málsins telur kærandi sig ekki hafa verið eiginlegan framkvæmdastjóra félagsins með þeim réttindum og skyldum sem slíku starfi fylgja þrátt fyrir ráðningarsamninginn. Meginstarfssvið hennar hjá félaginu hafi verið að afla fjármagns til félagsins í formi lána og nýrra hluthafa. Kærandi hafi hvorki haft prókúruumboð sem framkvæmdastjóri né verið tilkynntur sem slíkur til hlutafélagaskrár. Kærandi hafi því hvorki haft þau réttindi né borið þær skyldur í starfi sem fylgi starfi framkvæmdastjóra. Hafi félagið staðið mun verr fjárhagslega en hún hafi gert sér grein fyrir enda hafi hún ekki komið að ákvörðunum er vörðuðu fjármál félagsins. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var enginn skráður framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrir félagið frá febrúar til september 2007. Fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins hafði tilkynnt hlutafélagaskrá um uppsögn sína með bréfi, dags. 17. febrúar 2007, en tilkynnt var um nýjan framkvæmdastjóra félagsins með bréfi til hlutafélagaskrár, dags. 4. september 2007.

Í málinu liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur, dags. 25. apríl 2007, sem kærandi undirritaði en þar kemur fram að kærandi sé ráðinn til hins gjaldþrota félags í því skyni að gegna starfi framkvæmdastjóra/fjármálastjóra þess. Samkvæmt 4. gr. samningsins voru verkefni hennar meðal annars að annast fjármálastjórnun og hafa yfirumsjón bókhalds fyrir félagið sem og tvö önnur félög sem þar eru nánar tilgreind. Enn fremur kemur fram að kærandi sé prókúruhafi fyrir hið gjaldþrota félag. Jafnframt liggur fyrir tölvubréf, dags. 1. apríl 2007, frá  […] til kæranda þar sem  […] lýsir því yfir að hann hafi áhuga á ráða hana til félagsins sem fjármálastjóra eða framkvæmdastjóra. Í tölvubréfinu koma jafnframt fram tillögur að launum kæranda taki hún starfinu. Þar kemur fram að verði hún framkvæmdastjóri félagsins verði launin á bilinu 550.000 – 600.000 kr. á mánuði en launaseðlar sem liggja fyrir í málinu gefa til kynna að laun hennar hafi verið 700.000 kr. á mánuði þann tíma er hún starfaði hjá félaginu. Er það jafnframt í samræmi við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Þykir það renna stoðum undir að hún hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu á þeim tíma er hún starfaði þar. Þá benda engin gögn til þess að hún hafi ekki litið á sig sem framkvæmdastjóra félagsins á þeim tíma.

Að öllu þessu virtu verður að gera ráð fyrir að kærandi hafi verið í þeirri aðstöðu hjá félaginu að vera ljóst hver fjárhagsleg staða þess var á þeim tíma er hún starfaði þar og þá ekki síst í ljósi þess að óumdeilt er að hlutverk hennar var að afla fjármagns til félagsins í formi lána og nýrra hluthafa. Þá verður að gera ráð fyrir að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir að þar sem hún gegndi starfi framkvæmdastjóra samkvæmt ráðningarsamningi gæti hún borið þar nokkra ábyrgð lögum samkvæmt.

Það að kærandi hafi ekki verið skráður í hlutafélagaskrá sem framkvæmdastjóri verður ekki talið hafa áhrif á starfsstöðu kæranda hjá félaginu í skilningi laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 299/1997. Þar segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfest var af Hæstarétti að vanræksla á því að tilkynna um aðila sem framkvæmdastjóra félags til hlutafélagaskrár hafi ekki áhrif á stöðu hans hjá félaginu að þessu leyti. Verður að ætla að dómurinn hafi fordæmisgildi í máli þessu en lög um Ábyrgðasjóð launa hafa ekki breyst að þessu leyti frá eldri lögum.

Því er haldið fram að Ábyrgðasjóði launa hafi borið að taka tillit til afstöðu skiptastjóra og þar sem skiptastjóri hafi samþykkt kröfu kæranda hafi sjóðnum borið að greiða kröfuna. Samkvæmt 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa skal skiptastjóri í búi vinnuveitanda láta Ábyrgðasjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgða sjóðsins á grundvelli laganna. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignarstöðu búsins. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps þess er varð að 13. gr. gildandi laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að Ábyrgðasjóður launa sé ekki bundinn af umsögn skiptastjóra enda hafi stjórn sjóðsins sjálfstætt úrskurðarvald á grundvelli þeirra laga er hann starfar eftir. Er meðal annars tekið fram að þess séu allmörg dæmi að sjóðurinn hafi hafnað ábyrgð á kröfu þótt skiptastjóri hafi viðurkennt forgangsrétt hennar. Verður því ekki fallist á að Ábyrgðasjóði launa hafi borið að samþykkja kröfu kæranda á þeirri forsendu að skiptastjóri hafi samþykkt kröfuna.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki sýnt fram á annað en að hún hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá hinu gjaldþrota félagi í skilningi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum. Þegar af þeirri ástæðu fellur krafa kæranda því utan ábyrgðar sjóðsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laganna.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 27. febrúar 2009, um synjun á ábyrgð á kröfu  […], kt.  […], á hendur þrotabúi Nýs húss ehf., kt. 700905-1520, skal standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum